Íbúð til leigu í Gernsbach í Svartaskógi

    Um er að ræða snyrtilega tveggja herbergja íbúð (anddyri, stofa, eldhús, svefnherbergi og bað) í litlu þriggja hæða fjölbýlishúsi með alls átta íbúðum í Hebelstrasse 16, Gernsbach. Íbúðin er á þriðju hæð, að hluta til undir súð. Út frá stofu er gengið út á rúmgóða vesturverönd með góðu útsýni yfir bæinn og skógi vaxnar hæðir umhverfis hann. Út frá svefnherbergi er gengt út á austurverönd, sömuleiðis með útsýni. Á sólríkum degi er hægt að nóta sólar á veröndunum frá sólarupprás og fram að sólsetri. 
    Íbúðin var innréttuð með nýjum húsgögnum í ársbyrjun 2009 og er mjög vel um gengin. Eldhúsið er búið rúmgóðum ísskáp, eldavél með ofni, uppþvottavél og góðri kaffivél. Borðbúnaður er fyrir 6 og allur venjulegur búnaður er til staðar. Í stofu er 32” sjónvarp og hljómtæki með iPod vöggu og CD/DVD spilara. Í íbúðinni er þráðlaus internettenging og fjölnota (bleksprautu) prentari. 
    Gott hjónarúm er í svefnherbergi en ef fleiri en tveir vilja gista eru tvær dýnur í geymslu í kjallara sem nota má sem gestarúm í stofu. Á daginn er auðvelt að renna þeim inn í svefnherbergi. Í geymslunni er auk þess uppblásanlegt rúm. Þar er einnig að finna ungbarnarúm (60 x 120 cm) ef á þarf að halda. Sængur og rúmföt til skipta fyrir fjóra fylgja íbúðinni. Íbúðinni tilheyrir sér þvottavél og þurrkari í þvottahúsi í kjallara. Gasgrill er úti á vesturveröndinni. 
    Íbúðin verður til leigu í sumar. Lágmarkstími er fimm dagar en að öðru leyti geta menn ráðið dvalarlengd svo fremi sem hún rekst ekki á aðrar bókanir.
   Nánar um verð og bókanir og kort á undirsíðum.

    NÝTT: Í maí verður sett upp loftkæling í íbúðinni. Stillanlegur kælibúnaður (frá Daikin) verður settur upp bæði í stofu og svefnherbergi með tengingu við útstöð á austurverönd. Þar með mun dvölin í Gernsbach verða enn þægilegri þeim, sem nota íbúðina að sumarlagi.

Veðrið í Gernsbach næstu daga

    Smávegis fróðleikur um Gernsbach.
    Gernsbach er um 15.000 manna fallegur smábær í Murgtal í norðvesturjaðri Svartaskógar. Frá íbúðinni er ekki nema 5 mín gangur að góðum matvöruverslunum (Rewe og Aldi hlið við hlið) og 7 mín gangur er að lestarstöð og er maður þá kominn á víðfeðmt almennissamgöngunet. Niður í gamla miðbæinn í Gernsbach, sem státar af sögufrægum og fallegum byggingum, er rólegur 10 mín gangur. Í miðbænum eru fjölbreytilegir veitingastaðir og svo er bara að trítla aftur heim eftir notalegan kvöldverð ef ekki var eldað heima eða grillað á veröndinni.
Murgtal er dalur sem áin Murg rennur eftir frá upptökum sínum nálægt Freudenstadt í Svartaskógi og sameinast svo Rín nálægt Rastatt. Eftir dalnum liggur þjóðvegur (Bundesstrasse) 462 og um hann er veruleg umferð. Áður fyrr lá 462 í gegnum miðjan bæinn. Í dag liggur þjóðvegurinn í göngum undir þéttbýliskjarnann og því er umferð þægilega róleg í Gernsbach.


  
http://www.wetter.net/cgi-bin/wetter-net3/wetter-stadt.pl?NAME=Gernsbachhttp://www.gernsbachttp//www.gernsbach.de/pb/site/Gernsbach2015/node/2367278/Lde/index.htmlh.de/pb/,Lde/308554.htmlhttp://www.gernsbach.de/shapeimage_2_link_0shapeimage_2_link_1shapeimage_2_link_2

Frá Gernsbach

Hebelstrasse 16